Prins Alwaleed bin Talal frá Saudi Arabíu segist ætla auka hlutafé sitt í Citigroup bankanum. Alwaleed er stærsti einstaklingshluthafi í Citigroup nú þegar. Eins og áður hefur komið fram hefur Citigroup bankinn átt í miklum lausfjárerfiðleikum undanfarið og segist Alwaleed vilja auka lausafé bankans.

Wall Street Journal greinir frá þessu en ekki kemur fram hversu mikið fjármagn Alwaleed mun láta í bankann. Þó er talið líklegt að Alwaleed muni halda hlut sínum undir 5%.

Eins og vb.is greindi frá í gærkvöldi var Citigroup einn fárra banka sem hækkuðu í Kauphöllinni í New York í gær en þá hækkað gengi bankans um 2%.

Alwaleed hefur átt hlut í bankanum frá árinu 1990 og hefur áður komið bankanum til hjálpar við svipaðar aðstæður að því er WSJ greinir frá.

Þá er einnig talið að China Development Bank muni fjárfesta um 2 milljarða bandaríkjadala í bankanum á næstunni og segir WSJ að fleiri fjárfestar muni grípa til svipaðra aðgerða.

Blaðið hefur eftir nafnlausum heimildarmönnum innan Citigroup að bankinn þurfi að auka lausafé sitt um 8 – 10 milljarða dala. Talsmenn Citigroup neituðu að tjá sig þegar eftir því var leitað.

I nóvember s.l. seldi bankinn 4,9% af eigin hlut fyrir 7,5 milljarða bandaríkjadala til opinbers fjárfestingasjóðs Abu Dhabi.