Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið, að íslensk ferðaþjónusta hafi eins og aðrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar notið veiks gengis íslensku krónunnar undanfarin misseri og hafi þannig orðið tekjuaukning í greininni og afkoma margra fyrirtækja batnað.

„Það er þó áhyggjuefni að meðaltekjur á hvern erlendan ferðamann, sem kemur til Íslands, hafa lækkað ef miðað er við erlenda gjaldmiðla. Mér þykir fólk einblína um of á fjölda ferðamanna, eins og það eina sem skipti máli sé það hvort þeir verði ein milljón eða tvær. Það sem skiptir okkur Íslendinga máli er miklu frekar hvað við fáum miklar tekjur af ferðaþjónustunni. Ég og fleiri í ferðaþjónustunni viljum því „milljón krónur af hverjum ferðamanni frekar en milljón ferðamenn,“ þ.e. að stefna frekar að því að auka meðaltekjur á hvern erlendan ferðamann en einhliða fjölgun ferðamanna.“

Grímur segir alveg ljóst að innviðir íslenskrar ferðaþjónustu og náttúru landsins séu þegar við þolmörk á háannatíma í júlí og ágúst.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.