Ósk Heiða Sveinsdóttir tók við stöðu markaðsstjóra Krónunnar og Kjarval um áramótin og hefur síðan þá lagt mikla áherslu á að reyna að eiga samtal við neytendur verslunarinnar með það fyrir augum að Krónan geti uppfyllt kröfu flestra.

Vill auka samtalið við viðskiptavini

Það virðist vera ákveðinn bragur yfir auglýsingum lágvöruverslana – getur þú útskýrt nánar hvað felst í því að markaðssetja slíkt vörumerki?

„Við viljum náttúrlega að markaðssetningin og skilaboðin sem við sendum út á markaðinn endurspegli það sem er í versluninni og sömuleiðis að upplifun í verslun sé í takt við markaðsefnið og skilaboð okkar. Þannig þarf að vera samræmi alls staðar og að þau hughrif sem þú finnur fyrir þegar þú sérð auglýsinguna endurspeglist inn í búðina. Markmið okkar er að veita samkeppni og vera með góða vöru á góðu verði. Auglýsingarnar eiga því að vera skýrar og einfaldar þannig að þessi markmið okkar komist sem best til skila. Við sjáum gríðarleg tækifæri í stafrænni markaðssetningu og í því að auka samtalið við viðskiptavini okkar. Við viljum þannig spyrja viðskiptavini okkar hvað þeim finnst um okkur, hvað við gerum vel og hvar við getum bætt okkur og við viljum geta tekið á móti þessum svörum og brugðist við. Með þessu fáum við mjög verðmætar upplýsingar um hverju markaðurinn er að kalla eftir því. Það hafa allir skoðun á versluninni enda förum við langflest út í búð nokkrum sinnum í viku og mikill hluti okkar ráðstöfunartekna fer í matvæli og aðrar vörur.“

Myndir þú segja að þið séuð framarlega á merinni hvað slíka markaðssetningu varðar á Íslandi?

„Við viljum vera það. Við leggjum mikla áherslu á markaðssetningu af þessu tagi og viljum standa okkur vel. Krónan er þannig vörumerki að við viljum taka þátt í þessu samtali við viðskiptavini okkar og þá þróun sem er að verða í samfélaginu. Við viljum vera virkur þátttakandi í samfélaginu, við vitum að við getum haft áhrif og við viljum að þau áhrif séu já­ kvæð. Við getum gert betur í tengslum við samfélagslega ábyrgð og ætlum okkur að gera það. Það skiptir máli að sýna frumkvæði og við höfum fullt af hugmyndum hvernig við getum gert betur.“

Nú hefur Bónus löngum þótt leiðandi á íslenskum lágvörumarkaði. Getið þið keppt við þær verslanir þegar kemur að verðlagningu?

„Já klárlega, við erum fullkomlega samkeppnishæf við lægstu verð á markaði. Við höfum gaman af stöðu okkar sem minni aðilinn á markaðnum en þess vegna þurfum við líka að hafa heilmikið fyrir því að vöruverð okkar veiti öðrum á markaðnum raunverulega samkeppni. Við erum keppnisfólk, við viljum gera þetta vel og við erum með mjög mikinn metnað til að standa okkur vel. Við veitum samkeppnina og erum ofsalega stolt af því.“

Vilja selja eldsneyti

Nú hafa borist fréttir þess efnis að Krónan hafi hug á því að hefja sölu á eldsneyti við verslanir sínar, hver er staðan á þeim málum? „Þetta er allt í skoðun eins og er. Við höfum mikinn áhuga á því að taka þátt á þessum markaði og við teljum okkur hafa fullt erindi inn á hann. Þetta er allt í skoðun.“

Viðtalið við Ósk má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.