Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælir í dag fyrir þingsályktunartillögu um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum. Samkvæmt tillögunni á að tímasetja stefnuna samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.

Í greinargerð með tillögunni segir að afreksíþróttir hafi skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólk Íslendinga verið góð landkynning á erlendri grund. „Jafnframt vita allir mikilvægi þess að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir. Slíkt er ómetanlegt fyrir allt forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Ýmislegt hefur verið gert af hálfu hins opinbera sem vert er að nefna, sérsamböndum hefur verið gert kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands, ferðasjóður íþróttafélaga hefur verið efldur og stutt hefur verið við afrekssjóð ÍSÍ, en betur má ef duga skal,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þá segir í tillögunni að nauðsynlegt sé að stefnan verði tímasett, t.d. til næstu 5–10 ára, og fjárhagslegur stuðningur tryggður samhliða. Stefnan verði endurskoðuð a.m.k. árlega.