Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vill bæta rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Hún segir jafnramt að flótti tækni- og hugverkafyrirtækja úr landi sýni hversu vondur auðlegðarskatturinn sé. Nýlega var sagt frá því að Friðrik Skúlason hefði selt fyrirtæki sitt, Frisk Software, úr landi. Sagði hann megin ástæðuna þá að auðlegðarskatturinn hefði lagst þungt á fyrirtækið.

„Fyrirtækin gagnrýna að regluverkið hér sé of flókið og tímafrekt. Við í mínu ráðuneyti erum markvisst að fara yfir allt regluverk sem undir okkur heyrir, með það að markmiði að einfalda það og draga úr kostnaði og tíma," segir Ragnheiður Elín í Fréttablaðinu.

„Ég trúi því staðfast að einfalt skattkerfi og hóflegir skattar séu betur til þess fallnir að skila tekjum inn í ríkissjóð og tryggja efnahagslegar framfarir. Báðir stjórnarflokkarnir deila þeirri skoðun. Þó þetta séu lítil skref eru þau mikilvæg í því að snúa skipinu við."