*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 5. júlí 2020 13:09

Vill bætur vegna sinnuleysis lögmanns

Fasteignafélag í eigu Kalla í Pelsinum hefur stefnt lögmanni og Sjóvá til viðurkenningar á bótaskyldu.

Jóhann Óli Eiðsson
Kalli í Pelsinum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

A16 Fasteignafélag ehf. hefur stefnt Sjóvá og lögmanni fyrir dóm en í málinu er krafist viðurkenningar á bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingu lögmannsins vegna starfa hans, og fulltrúa á hans vegum, fyrir fasteignafélagið á árunum eftir hrun. Eigandi félagsins er Karl Steingrímsson, yfirleitt kenndur við Pelsinn. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum telur að bótaskylda hafi stofnast en stefndu í málinu una ekki úrskurði nefndarinnar.

Á haustmánuðum ársins 2009 gerðu A16 og slitastjórn hins fallna Landsbanka með sér samning um að hið síðarnefnda tæki á leigu hluta tveggja fasteigna í Austurstræti. Nokkrar deilur urðu á milli aðila um stærð hins leigða húsnæðis, skiptingu fasteignagjalda og umgengni nágranna og gesta skemmtihúsa um nágrenni hennar.

Samningssambandinu lauk haustið 2012 en þá taldi A16 að slitastjórnin stæði í skuld við sig. Áður, það er haustið 2011, voru innheimtuviðvaranir sendar slitastjórninni. Sættir náðust ekki milli aðila og í byrjun árs 2015 lýsti A16, með milligöngu lögmanns, kröfu í búið. Hljóðaði hún upp á tæpar 85 milljónir króna, auk dráttarvaxta, að frádregnum innborgunum upp á rúmar 66 milljónir króna.

Slitastjórnin hafnaði því að krafan kæmist að við slitin þar sem kröfulýsing hefði verið send of seint. Ágreiningur um það endaði fyrir dómi og tók héraðsdómur undir rök slitastjórnarinnar, það er að kröfulýsingin árið 2015 hefði ekki verið send án ástæðulauss dráttar og að fyrrgreind innheimtubréf hefðu ekki uppfyllt skilyrði þess að teljast kröfulýsing.

Sú niðurstaða var síðan staðfest í Hæstarétti í júní 2016. A16 fór fram á það við Sjóvá að það fengi meint tjón sitt vegna þessa bætt úr starfsábyrgðartryggingu hans hjá félaginu. Ágreiningur vegna þess endaði fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Byggði tryggingafélagið á því að ekki hefði verið sýnt fram á það að umræddum lögmanni hefði verið falið að gæta hagsmuna A16.

Annar lögmaður hefði annast verkið og því bæri lögmaðurinn, sem er eigandi umræddrar lögmannsstofu, ekki ábyrgð á drætti kröfulýsingarinnar. A16 byggði á móti á því að téðum lögmanni hefði verið veitt umboð til að annast málið.

„Umbjóðanda mínum var tilkynnt að ekki yrði unað við úrskurðinn og því var málinu stefnt fyrir dóm,“ segir lögmaðurinn Konráð Jónsson, hjá JSG lögmönnum, en hann flytur málið fyrir hönd A16. Málið var þingfest fyrr á þessu ári og hafa stefndu skilað greinargerðum sínum. „Ég er í raun nauðbeygður til að höfða málið en satt best að segja er mér það miður og óljúft,“ segir Karl Steingrímsson við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.