Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, segir að óheimilt ætti að vera fyrir flugfélög að selja flugmiða á undir 10 evrur, um 1.400 krónur íslenskar. Slíkt sé óábyrgt fjárhagslega, pólitískt og vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Bloomberg greinir frá.

Spohr segir tvö stærstu lággjaldaflugfélög Evrópu tapa stórfé á því að sækja inn á þýska flugmarkaðinn. Lufthansa lækkaði afkomuspá sína fyrir þetta ár nýlega og bar við lækkandi flugfargjöld vegna aukinnar samkeppni, sér í lagi á flugleiðum til og frá Þýskalandi og Austurríki.

Ryanair er meðal þeirra félaga sem bjóða upp á flugfargjöld frá Berlín fyrir innan við 10 evrur, til að mynda til Búdapest, Barcelona og Róm.