Meðal tillagna sem teknar verða fyrir á hluthafafundi Arion banka þann 9. ágúst næstkomandi eru afnám kaupaukakerfa og auglýsing allra hálaunastarfa. Auk þess verða kjörnir tveir nýir stjórnarmenn og einn í tilnefningarnefnd.

Tillögurnar koma frá Rúnari Einarssyni, hluthafa. Sú fyrri felur í sér að öll kaupaukakerfi verði afnumin, nema þau sem ná til allra starfsmanna og hvers verðmæti er óverulegt.

Sú seinni er að allar stöður með laun yfir milljón krónum á mánuði verði auglýstar, og umsækjendur látnir setja fram launakröfur með umsókn „í lokað umslag“. Hæfnisnefnd fari svo yfir umsóknir, og sá verði ráðinn sem uppfylli allar kröfur starfsins, og hafi farið fram á lægst laun.

Tillögurnar eru sagðar ganga út á að lækka kostnað bankans og auka þar með hagnað, til að hægt verði að greiða hærri arðgreiðslur.