Stærsti sjálfstæði hluthafi í bandaríska tölvuframleiðandanum Dell hefur heitið því að berjast gegn yfirtöku stofnandans, Michael Dell. Hluthafinn, Southeastern Assed Management á 8,5% hlut í Dell hafnaði yfirtökutilboði Michael Dell og sagði það langt frá því að vera ásættanlegt.

Southeastern segir í bréfi til stjórnar Dell að fyrirtækið sé tvisvar sinnum verðmætara en tilboð Michael Dell gerir ráð fyrir. Býður hann 24,4 milljarða dala fyrir allt hlutafé í fyrirtækinu, andvirði um 3.100 milljarða króna.

Michael Dell, sem nýtur m.a. fjárstuðnings Microsoft, segir aftur á móti að það sé hluthöfum í hag að taka tilboðinu. Michael Dell, sem stofnaði fyrirtækið árið 1984, er forstjóri Dell og á núna um 14% í fyrirtækinu. Hann vill afskrá fyrirtækið af hlutabréfamarkaði.