Gunnar Th. Kristjánsson, staðgengill skattrannsóknarstjóra, telur að fjölga mætti birtingum á álagningarskrám hjá ríkisskattstjóra og hafa þær jafnvel mánaðarlega. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Hvernig sem á þetta er litið felst fælingarmáttur í að birta þetta opinberlega, annars væri enginn tilgangur í birtingunni,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið.

Gunnar segir jafnframt að það sé árlegur viðburður að ábendingum sem skattrannsóknarstjóra berist fjölgi fyrstu dagana og vikurnar eftir að álagningarskrárnar eru birtar. Hins vegar sé misjafnt hvort ábendingarnar eigi við rök að styðjast.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagst harðlega gegn opinberri birtingu álagningarskráa hjá ríkisskattstjóra. Ætlar hún aftur að leggja fram frumvarp sitt í haust um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr skattaskrám og birtingu þeirra.