Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, sagði í umræðum á fundi Viðskiptaráðs um landbúnaðarkerfið að núverandi kerfi gæti ekki orðið framtíðarkerfi fyrir íslenskan landbúnað. Við endurnýjun búvörusamninga taldi hann æskilegast að gera tollverndina hluta af heildarsamningi, draga úr beinum stuðningi og haga reglum um styrkveitingar með þeim hætti að bændur geti með auðveldari hætti fært starfsemi sína á milli búgreina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði en fundurinn var haldinn í morgun. Á honum var fjallað um æskilegt fyrirkomulag til að hámarka ávinning greinarinnar, annars vegar frá sjónarhóli neytenda og hins vegar framleiðenda.

Á fundinum tóku til máls Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, sem fjallaði um stöðu kerfisins frá sjónarhóli neytenda og Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands sem talaði um stöðu kerfisins frá sjónarhóli framleiðenda. Sigurður Ingi tók síðan þátt í pallborðsumræðum ásamt frummælendum.

Viðskiptaráð mun gefa út skoðun um landbúnaðarmál í byrjun næstu viku. Í henni verður fjallað um helstu áskoranir greinarinnar og möguleika til umbóta.