Karl Garðarsson alþingismaður vill breyta námslánakerfinu á Íslandi, í þá átt að það verði sambland af námslánum og styrkjum. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Karl mjög óeðlilegt hvernig kerfið sé uppbyggt, ákveðnir hvatar séu til að taka sem mest námslán, því þá þurfi ekki að borga nema hluta þess til baka.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum eykst opinber styrkur eftir því sem einstaklingur tekur hærri námslán. Sem dæmi má nefna að 13% opinber styrkur felst að jafnaði í námslánum undir 2,5 milljónum kr. en þegar námslán eru komin yfir 10 milljónir kr. má búast við meira en helmings eftirgjöf.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN, að stjórnvöld þyrftu að spyrja sig hvort styrkurinn í kerfinu ætti að fara til þeirra sem tækju hæstu lánin, eða hvort væri kominn tími til að breyta kerfinu.

Fjárlaganefnd alþingis fjallaði um endurgreiðslur námslána á fundi sínum á föstudag, en þar kom fram að þrír einstaklingar, sem allir eru enn í námi, skulda meira en 30 milljónir króna í námslán. Karl, sem á sæti í fjárlaganefndinni, segir eðlilegt að menntamálaráðherra skoði þetta mál og komi með tillögur að breytingum. Ef menntamálaráðherra bregst ekki við þá útilokar Karl ekki að gera það sjálfur.