*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 4. maí 2013 19:45

Vill breyta rekstrarformi ríkisháskóla

Deildarforseti viðskiptadeildar HR telur að reka ætti ríkisháskólana sem sjálfseignarstofnanir. Samkeppnin yrði heilbrigðari við það.

Gísli Freyr Valdórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigt háskólasamfélag að í því ríki samkeppni. Það sést einna best á því að Háskóli Íslands hefur eflst með tilkomu raunverulegrar samkeppni frá Háskólanum í Reykjavík. Við viljum starfa í umhverfi þar sem ríkir samkeppni, hún veitir aðhald og gerir alla skólana betri,“ segir Þóranna Jónsdóttir, nýráðinn deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík (HR).

Þóranna var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar var hún m.a. spurð að því hvernig einkaskóla gangi í samkeppninni við ríkisháskóla.

„Samkeppnin gengur mjög vel,“ segir Þóranna.

„Í rannsóknum á viðskiptafræðisviðinu þá er HR á síðustu fimm árum með tvöfalt fleiri birtingar í svokölluðum ISI tímaritum en viðskiptafræðideild HÍ og það er mikilvægur mælikvarði á árangur í rannsóknum. Við erum ennfremur að útskrifa fleiri nemendur. En hins vegar þurfa háskólarnir að vera í ákveðnu samstarfi líka, enda erum við lítið land, og hafa þar að leiðarljósi hagsmuni nemendanna.“

Ríkið á að styðja við menntun en ekki reka skóla

Þóranna segir þó að því sé ekki að leyna að ólík rekstrarform skólanna valdi ákveðnum hnökrum.

„Það gerir nemendum til dæmis erfiðara um vik að færa sig á milli skóla, taka valnámskeið þvert á skóla og fleira í þeim dúr,“ segir Þóranna. „Við myndum vilja sjá raunverulegri samkeppni, þannig að það sé ekki eingöngu verið að halda einhverju á lífi bara af því að það hefur verið til svo lengi, og að fjármagninu sé skipt með réttlátari hætti. Samræming á rekstrarformi gæti því verið jákvæð fyrir alla aðila. Mín skoðun er sú að reka ætti ríkisháskólana sem sjálfseignarstofnanir sem hefðu þá frelsi til að ákveða sjálfir hvort þeir innheimta skólagjöld og þá hversu há þá þau væru. Samkeppnin væri þá heilbrigðari en hún er í dag. Ég held að það skipti máli fyrir samfélagið að ríkið styðji við menntun, en það er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að reka skóla – ekki frekar en sjúkrahús eða aðrar stofnanir.“

Ítarlega er rætt við Þórönnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.