Ríkiskaup opnuðu tilboð í St. Jósefsspítala síðastliðinn þriðjudag og þá kom í ljós að hæsta tilboðið í spítalann, sem stendur við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði, átti Stofnás ehf. og hljóðaði það upp á 85 milljónir króna. Einnig voru opnuð tilboð í Suðurgötu 44, sem er þriggja hæða hús gegnt spítalanum. Skrauta ehf. bauð hæst í það hús, eða 37,6 milljónir.

Ríkið á 85 prósenta eignarhlut í byggingunum en Hafnarfjarðarbær á hin 15 prósentin. Málið fer nú í þann farveg að öll gögn verða send til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem mun fara yfir hæstu tilboðin. Ráðuneytið og bærinn eru ekki skuldbundin til að taka þessum tilboðum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er erfitt að segja hver niðurstaðan verður. Þó er talið líklegra en ekki að tilboðunum verði hafnað.

Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Stofnáss, segist hafa gert tilboðið með fyrirvara um að fá að breyta spítalanum í hótel.

„Til þess að það gangi eftir þarf að breyta aðalskipulagi,“ segir Gunnar. „Ég sá enga aðra lausn þannig. Það er erfitt að breyta þessu í íbúðir því veggirnir eru þykkir og húsið samanstendur af göngum og herbergjum sem þýðir aftur á móti að byggingin hentar vel fyrir hótel. Ég hugsa að þarna sé hægt að vera með 40 herbergja hótel, sem er reyndar ekki  hagstæð stærð, þannig séð, en húsið er mjög flott og á góðum stað.“

Spurður hver áætlaður kostnaður sé við breyta húsinu í hótel svarar  Gunnar: „Það eru einhverjar 100 milljónir en það er ódýrt hótel.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .