*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 18. mars 2020 12:43

Vill brjóta Íslandsmet í hagvexti

Hagfræðingur Viðskiptaráðs segir von um að hagkerfið taki „v-feril“ og vaxi hraðar en 9,7% hagvöxtur ársins 2007 á næsta ári.

Ritstjórn
Konráð S. Guðjónsson er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir að þó höggið nú sé þungt fyrir íslenskt efnahagslíf, og óvissan mikil, þá muni birta fljótlega á ný gangi allt eftir, „og Íslandsmet í hagvexti, horft á síðustu fimm áratugi (9,4% árið 2007), gæti verið í hættu á næsta ári.“

Þetta kemur fram í pistli sem hann skrifaði fyrir Markaðinn, en hefur verið birtur á vef Viðskiptaráðs, þar sem hann ber saman þrjár sviðsmyndir af mögulegum áhrifum af útbreiðslu Covid 19 veirunnar á hagkerfið.

Það er að þróun hagkerfisins verði eins og:

  • L-ferill, þegar verður varanlegur skaði á hagkerfinu
  • U-ferill, þegar verður hægur efnahagsbati eftir fallið nú
  • V-ferill, þegar það verður hraður viðsnúningur á ný

Segir hann að markmið aðgerða bæði íslenskra og erlendra stjórnvalda sé að tryggja að efnahagslífið nái sér hratt og örugglega eftir höggið nú, og það ætti að vera forgangsatriði allra sem vettlingi geti valdið hér á landi.

„Sköfum ekkert ofan af því: Íslenskt atvinnu- og efnahagslíf er skelfilegri stöðu og verður það áfram einhverjar vikur og jafnvel mánuði vegna COVID-19 heimsfaraldursins,“ segir Konráð meðal annars og vísar í aðgerðir Norðmanna.

„Til að mynda ætlar norska ríkið í aðgerðir til að hjálpa fyrirtækjum sem jafnast á við 85 milljarða íslenskra króna aðgerðir hér á landi og bandaríski seðlabankinn hefur lækkað vexti um 1,5 prósentustig.“