Ákvörðun stjórnarflokksins í Taívan að útnefna Frank Hsieh sem forsetaframbjóðanda flokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári gefur vísbendingu um að draga muni úr þeirri pólitísku spennu sem ríkt hefur í samskiptum Taívans og Kína undanfarin ár. Öfugt við núverandi forseta Taívan, Chen Shui-bian, er flokksbróðir hans Hsieh talinn vilja hverfa frá þeim sjálfstæðistilburðum sem einkennt hafa stjórnartíð Chen og koma á betri samskiptum við ráðamenn í Peking. Embætti forseta er valdamesta embættið í Taívan og ræður hann miklu um þá stefnu sem er mótuð og framkvæmd gagnvart Kína.

Sigur Hsieh í prófkjöri Lýðræðislega Framfaraflokksins (DPP) um síðustu helgi kom stjórnmálaskýrendum nokkuð á óvænt, en Hsieh hlaut 45% atkvæða á meðan keppinautur hans Su Tseng-chang - sem naut stuðnings Chen forseta - fékk 33%. Sú staðreynd að Su tapaði í prófkjörinu þrátt fyrir stuðning Chen endurspeglar minnkandi völd og áhrif forsetans á síðasta ári kjörtímabils síns.

Frá því að Chen var fyrst kosinn forseti Taívan árið 2000 - og aftur fjórum síðar - hefur hann ítrekað ögrað hinum valdamiklu nágrönnum í austri með sjálfstæðistilburðum sínum: Hann hefur talað fyrir því að Taívan muni að endingu hljóta sjálfstæði, auk þess að herða mjög á reglum um viðskipti og fjárfestingar við meginlandið. Í kjölfarið hafa kínversk stjórnvöld brugðist við með því að slíta öllum stjórnmálasamskiptum við ríkisstjórn hans.

Hsieh hefur hins vegar allt aðra og raunsærri sýn gagnvart samskiptum Taívans og Kína. Hsieh gegndi starfi forsætisráðherra á árunum 2005 til 2006 en þurfti að víkja úr embætti sökum þeirrar gjörólíku afstöðu sem hann og Chen forseti höfðu gagnvart Kína: Hsieh vildi stefna að mun nánari efnahagstengslum við Kína, meðal annars að koma á beinu flugi til meginlandsins (sem gekk eftir), í því augnamiði að koma til móts við kröfur viðskiptalífsins.

Hin pragmatíska afstaða Hsieh er talin líkleg til að auka sigurlíkur hans í forsetakosningunum sem fara fram í marsmánuði á næsta ári. Taívanar hafa sýnt að þeir vilja viðhalda óbreyttu ástandi í samskiptunum við Kína og óttast þær afleiðingar sem núverandi stefna Chen forseta gæti kallað yfir Taívan. Nýlegar skoðanakannanir varpa ljósi á það að á meðal almennings er lítill stuðningur við að Taívan lýsi yfir sjálfstæði, eða í kringum 90%. Stöðugleiki í samskiptum Taívans við Kína er ekki síður mikilvægur vegna þeirra miklu - og vaxandi - efnahagstengsla sem Taívan á við Kína. Þrátt fyrir spennu í stjórnmálaskiptunum er Kína stærsta viðskiptaþjóð Taívans og árið 2005 fóru um 40% af heildarútflutningi eyjunnar til Kína. Frá því árið 2002 hefur auk þess meira en helmingur af erlendum fjárfestingum Taívans verið í Kína.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.