*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 5. mars 2015 08:45

Vill byggja 98 herbergja hótel í Keflavík

Framkvæmdastjóri Húsagerðarinnar vill byggja risahótel í Reykjanesbæ og leitar að fjárfestum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Staðsetningin er mjög góð. Við erum aðeins í 5 mínútna fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli. Rætt er um að hótel séu að færast út fyrir miðborg Reykjavíkur. Hér eru ýmis tækifæri,“ segir Áskell Agnarsson, framkvæmdastjóri Húsagerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

Þar kemur fram að til skoðunar sé að reisa 98 herbergja hótel við Víkurbraut 17 í Keflavík sem kæmi í stað fyrirhugaðs fjölbýlishúss við sjóinn, en grunnur hússins hefur staðið óhreyfður frá efnahagshruni.

Hótelið yrði átta hæðir auk kjallara og bílakjallara þar fyrir neðan. Áskell hefur ásamt arkitektum gert drög að breyttri hönnun hússins og leitar nú að áhugasömum fjárfestum.