Danski hagfræðingurinn Lars Christensen segir að tími sé kominn á að setja dönsku krónuna á flot. Þetta segir hann í pistli sem hann skrifaði í dag í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að Danir höfnuðu Maastricht sáttmálanum og þar með því að taka upp sameiginlegan evrópskan gjaldmiðil.

Segir Lars ákveðna kaldhæðni yfir þessum 25 árum þar sem Danir hafi í raun og veru verið hluti af evrusvæðinu frá því evran var tekinn upp árið 1999. Ástæðan er sú að gegni dönsku krónunnar hefur verið fest við evru frá upphafsdögum hennar. Segir hann að Danir hafi í raun lifað við fastgengisstefnu allt frá 1873 með einum eða öðrum hætti.

Í pistlinum bendir hann á að þrátt fyrir að Danir þekki fátt annað en fastgengisstefnu þá sé hún ekki endilega besta lausnin í peningamálum landsins. Bendir hann á að Svíþjóð í þessu samhengi en Svíar voru tilneyddir til að hverfa frá fastgengisstefnu sinni árið 1992.

Telur Lars að sjálfstæð peningastefna hafi gefið Svíum aukið svigrúm til þess að takast á við fjármálakreppuna árið 2008 þar sem sænski seðlabankinn lækkaði stýrivexti umtalsvert til þess að örva hagkerfið. Á sama tíma hafi danski seðlabankinn neyðst til þess að hækka vexti auk þess sem hann þurfti að grípa til inngripa á gjaldeyrismarkaði til að verja fastgengið. Nefnir hann í kjölfarið að sænska hagkerfið hafi vaxið mun hraðar en það danska frá árinu 2008.

Í lokinn segir Lars að þrátt fyrir að auðvelt sé að benda á gallana við fastgengisstefnu þá sé ekkert auðveldara að koma með lausnir. Einföldustu lausnina segir hann vera að gera í raun það nákvæmlega sama og Svíar og Norðmenn hafa gert sem er að leyfa genginu að fljóta en á sama tíma hafa 2% verðbólgumarkmið. Segir hann þessa aðferð aðferð ekki endilega vera ákjósanlega þar sem verðbólga til skamms tíma getur orðið fyrir skell í framboði og eftirspurn þá sérstaklega eftir olíu.

Leggur Lars til að í staðin fyrir verðbólgumarkmið myndi seðlabankinn setja sér markmið um hagvöxt eða vöxt í nafnlaunum. Þetta myndi veita seðlabankanum svigrúm til þess að vera aðhaldssamari í peningamálum og hafa þar með tæki til að takast á við niðursveiflur í hagkerfinu.