Norðvesturnefnd ríkisstjórnarinnar hefur sent ríkisstjórninni 26 tillögur um hvernig efla megi fjárfestingar, byggðaþróun og fjölga atvinnutækifærum á Norðurlandi vestra. Meðal þessara tillagna er að höfuðstöðvar Rarik verði fluttar til Sauðárkróks, en RÚV greindi frá málinu síðasta laugardag.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir í samtali við Fréttablaðið að tillagan hugnist sér ekki. „Fyrirtækið er með starfsstöðvar á 22 stöðum á landinu og í mínum huga verður áfram þörf fyrir að stærsta skrifstofan verði í Reykjavík,“ segir hann. Um tvö hundruð manns starfa hjá fyrirtækinu í heildina, en þar af eru um fimmtíu í höfuðstöðvunum í Reykjavík.

„Ég tel til dæmis að það sé meira framboð af háskólamenntuðu fólki í Reykjavík og það er í raun og veru ástæðan fyrir því af hverju ég tel að stærsta skrifstofan eigi að vera í Reykjavík. En þetta er auðvitað á endanum ákvörðun stjórnvalda og ef þau ákveða að fara einhverja svona leið þá hljóta þau að velta slíkum hlutum fyrir sér. Mér finnst þó alls ekki tímabært að fara á taugum yfir þessu eins og staðan er í dag,“ segir Tryggvi.