Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hefur blandað sér í rekstrarerfiðleika norræna flugfélagsins SAS en hún hvatti í dag starfsfólk félagsins til að samþykkja nýja rekstaráætlun til að forða því að flugfélagið fari í þrot.

Á meðal þeirra sparnaðaraðgerða sem lagðar hafa verið til eru að laun starfsmanna lækki um 15%. Þetta er þvert ofan í kjarasamning Félags danskra flugmanna til næstu fimm ára sem undirritaður var fyrir 3 til 4 árum síðan.

Danska dagblaðið Börsen hefur eftir forsætisráðherranum á vef sínum að henni þykji taprekstur SAS undanfarin ár óviðunandi og verði að koma í veg fyrir að rekstrarerfiðleikar félagsins lendi á herðum danskra skattborgara.

„Við verðum að haga okkur eins og hluthafar,“ sagði hún.