Steingrímur J. SIgfússon, alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, telur það ekki hættulegt að ríkið eigi meirihluta í stærstu viðskiptabönkunum. Þetta kemur fram í viðtali við hann í hádegisfréttum RÚV .

„Ég hef líka leyft mér að benda á að það var ekki á meðan ríkið átti bankana sem þeir fóru á hausinn og stefndu þjóðfélaginu í voða, það voru einkaaðilar sem afrekuðu það,“ segir Steingrímur í viðtalinu. „Þannig að ég held að það sé engin ástæða til að rjúka upp til handa og fóta og fara að gefa sér það fyrirfram að það eigi að fara í einhverja brunaútsölu á bönkunum.“

Ríkið á 70% af bankamarkaði eftir áramót

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, benti á það í gær að þegar Íslandsbanki er kominn í hendur ríkisins um áramót mun ríkið ráða yfir tveimur af þremur stóru viðskiptabönkunum auk þess sem það mun eiga 13% hlut í þeim þriðja, Arion banka. Jafngildir það að ríkið ráði yfir 70% af bankamarkaði en slík ríkisumsvif eru óþekkt á vesturlöndum.

Steingrímur segir að þótt það sé ekki endilega æskilegt fyrirkomulag þá sé það ekki hættulegt. „Ég minni nú á það að einhvern veginn komumst við nú ágætlega af á meðan ríkið átti tvo af þremur eða tvo stærstu bankana. Það er nú ekkert óskaplega langt síðan að staðan var nú bara sú og þeir fóru ekki á hausinn á meðan,“ segir Steingrímur í samtali við RÚV.

Í nýlegum pistli Óðins í Viðskiptablaðinu er þess minnst að Steingrímur var hlynntur útrás banka árið 1998.