„Við ætlum að einfalda kerfið með hag og þarfir fjölskyldunnar í huga. Það er löngu tímabært að viðurkenna að til dæmis ýmis heimilistæki eins og sjónvörp eru ekki lúxusvarningur sem ríkið á með hárri skattlagningu að vera að reyna að koma í veg fyrir að fólk kaupi sér,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta var á meðal þess sem kom fram í ræðu hans á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Hann sagði enn fremur tolla einnig á dagskrá en þó ekki þannig að hann boði niðurfellingu þeirra.

„Ég hefði viljað sjá breytingar í áherslu í umræðunni um þá. Ekki einungis að einblína á hvernig við getum fellt niður tolla, heldur sjá hvernig við getum fengið fellda niður tolla á okkar vörur og taka þá umræðuna um hvaða tolla við getum fellt niður á móti,“ segir Bjarni. Hann sagðist sannfærður um að Íslendingar hafi margt fram að færa sem eftirspurn er eftir í öðrum landið en er haldið frá neytendum með tollvernd. „Ég er ekki að mótmæla því að á ákveðnum sviðum séu ofurtollar sem þurfi að vinna á, en tökum umræðuna á nýjum nótum."