Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVU, var lengi virk í stjórnmálum og var meðal annars formaður SUS, framkvæmdastjóri þingflokks og bæjarstjóri í Garðabæ. Hún segist hafa notið þess að vera í stjórnmálum í tuttugu ár, en vill ekki fara í aftur í framboð.

„Ég held að það hafi ekki komið einn einasti dagur þar sem mér þótti það leiðinlegt,“ segir Ásdís. „En þegar ég var búin að vera í tuttugu ár þá mat ég það sem svo að mig langaði meira að vera á gólfinu að gera hluti sem væru áþreifanlegir frá degi til dags. Ég var búin að vinna mjög mikið með alls konar stefnumótun í stjórnmálum, framtíðarsýn og annað, og mér fannst kominn tími til að ég fengi sjálf að halda á hamrinum. Að ég fengi sjálf að vera í strigaskónum að hlaupa um og gera og græja.

Hef ég áhuga á stjórnmálum? Já. Ég hef skoðun á því hvað mér finnst að stjórnmálin eigi að vera að gera og hvernig. En ég held að það sé ekki gott fyrir mann að flakka of mikið á milli þannig að núna er þeim kafla í mínu lífi lokið.“

Ítarlegt viðtal við Ásdísi er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .