Nýr fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, segist ekki munu semja um skilyrði fjárhagsaðstoðarinnar við fulltrúa Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann vilji frekar eiga fundi með leiðtogum evrusvæðisins og reyna að fá skuldir Grikklands lækkaðar um helming.

BBC hefur þetta eftir honum eftir fund Varoufakis með Jeroen Dijsselbloem, yfirmanns Evruhópsins, sem í eru allir fjármálaráðherrar evrusvæðisins. Dijsselbloem sagði að Grikkland ætti að halda sig við umbótaáætlunina og að Grikkland og Evruhópurinn ættu sameiginlega hagsmuni í viðsnúningi gríska hagkerfisins innan evrusvæðisins. Varaði hann við afleiðingum þess ef gríska ríkisstjórnin myndi taka einhliða ákvarðanir varðandi endurskipulagningu skulda ríkisins. Í fréttinni segir að köldu hafi andað á milli mannanna tveggja.