Dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum vinna nú að því að þvinga stjórnvöld í Argentínu til þess að greiða af 1,33 milljarða dala skuldabréfi, jafnvirði tæpra 170 milljarða króna. Málið er liður í aðgerðum bandarískra fjárfesta og sjóða til að fá Argentínumenn til að standa við skuldbindingar sínar. Eins og frægt er orðið lýsti Argentína yfir þjóðargjaldþroti árið 2002 og greiddi ekki af 95 milljörðum dala. Upphæðin nemur 12.000 milljörðum íslenskra króna, sem jafngildir rétt rúmlega sjöfaldri landsframleiðslu Íslands. Stjórnvöld hafa staðið við hluta af lánunum en stýra því hvaða lánardrottnar frá kröfur sínar greiddar.

AP-fréttastofan segir Argentínumenn, þar á meðal Cristinu Fernandez, forseta landsins, hafa lagð mikla áherslu á að ekkert verði greitt af kröfum einstakra sjóða. Skuldabréfið sem um ræðir er í eigu bandaríska fjárfestingarsjóðsins NML Capital. Forsetinn segir það vogunar- eða hrægammasjóð, sem hafi eignast skuldir landsins og eigi sök á bágri fjárhagsstöðu ríkisins.