„Við komumst að þessu samkomulagi í gær í tengslum við fréttaflutninginn. Útleggið í rauninni er að sú góða vinna sem hefur átt sér stað hjá Straumi fái að halda áfram,“ segir Jakob Ásmundsson, sem í morgun tók við sem forstjóri Straums fjárfestingarbanka af Pétri Einarssyni .

Pétur hætti í kjölfar frétta þess efnis að bresk yfirvöld hafi bannað honum að sitja í stjórnum fyrirtækja í Bretlandi vegna skattaundanskota þar í landi. Jakob vill hvorki tjá sig um það í samtali við vb.is hvort ALMC, helsti eigandi Straums eða Straumur sjálfur kaupi hlutabréf sem Pétur á í bankanum og hvort starfslokasamningur hafi verið gerður við hann í tengslum við brotthvarfið úr forstjórastólnum.

Átti rúman 70 milljóna króna hlut

Pétur átti ásamt öðrum lykilstarfsmönnum Straums 30% hlut í bankanum um síðustu áramót. Fram kemur í ársuppgjöri Straums að virði hlutabréfa Péturs hafi numið rúmum 71,6 milljónum króna að nafnvirði. Pétur hefur sagt í fjölmiðlum það jákvætt að íslenskir starfsmenn eigi hlut í fyrirtækinu enda þar tvinnaðir saman hagsmunir þeirra og eigandans, ALMC.

„Þetta eru viðskipti sem hann átti við félagið. Ég hef ekkert um það að segja,“ segir Jakob og vísar á stjórnarformann félagsins um ofangreind mál.