Benedikt Eyjólfsson, stofnandi og eigandi Bílabúðar Benna, er mótfallinn því að ársreikningar einkafyrirtækja séu birtir opinberlega. Hann telur að keppinautar, sem margir hverjir enduðu í fangi bankanna, eigi engan rétt á að hnýsast í hans rekstri.

„Ég hef alltaf skilað ársreikningum, fyrst og fremst með skattframtali og einnig til ársreikningaskrár. Ég var sóttur til saka vegna þess að ég skilaði ársreikningum fyrir 2006 til 2010 ekki á réttum tíma til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Ástæðan fyrir síðbúnum skilum var ofur einföld, ég sætti mig ekki við að þurfa að sýna keppinautum mínum og bankastjórum þeirra hvernig ég haga rekstri fyrirtækisins. Bílabúð Benna er einkafyrirtæki sem sækir sér ekki fjármagn á almennan markað, og því er engin þörf fyrir að birta svo ítarlegar upplýsingar, enda er enginn að skoða þær nema keppinautarnir,“ segir Benedikt.

Lesa má ítarlegt viðtal við Benedikt í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .