Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir nauðsynlegt að endurskoða regluverk opinberra eftirlitsstofnana, með það fyrir augum að skoða í hverju eftirlitið er fólgið og hvers vegna það sé jafn dýrt og raun ber vitni.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Ragnheiður að íslensk fyrirtæki þurfi árlega að greiða tugi milljarða króna vegna opinbers eftirlits. Það sé því skoðunarinnar virði að fara yfir regluverk sem kalli fram slíkan kostnað fyrir fyrirtæki landsins.

Ragnheiður segist ekki hafa tölu á þeim eftirlitsstofnunum sem hið opinbera hefur komið á fót á síðustu árum. Hún segir að þrátt fyrir mikilvægi þeirra sé nauðsynlegt að spyrja sig hvort þörf sé fyrir þær allar, eða hvort megi gera hlutina með öðrum hætti.

Þá segir Ragnheiður: „Það hlýtur að eiga að vera hlutverk löggjafans að skoða hvers konar eftirlit við erum að beita, hverjir eru að beita því, hvað erum við að skoða og af hverju kostar það þessa gífurlegu fjármuni.“