Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, telur tímabært að endurskoða undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagði Haraldur að ekki mætti gleyma því um hvað undanþága mjólkuriðnaðarins snýst og til hvers hún var sett upphaflega. Hún snúist að miklu leyti um byggðastefnu: „Væri ekki þessi undanþága þá er ég ekkert viss um að það væri til dæmis mjólkurvinnsla í Búðardal eða á Egilsstöðum. Þetta skipulag tryggir líka að varan á að vera aðgengileg neytendum um allt land á sama verði.“

Haraldur segir að ef þessi atriði séu tryggð með öðrum hætti þá sé undanþágan ekki stórt mál fyrir sig. Hann segir að þrátt fyrir að undanþáguákvæðið hafi ákveðinn tilgang, þá sé nauðsynlegt að meta hvort þeim tilgangi hafi verið náð, eða hvort nauðsynlegt sé að endurskoða kerfið.