*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 15. nóvember 2017 10:29

Vill endurskoðun hluta skattsvikamála

Skattrannsóknastjóri vill að ríkissaksóknari endurskoði niðurfellingu á hluta skattsvikamála með um 10 milljarða skattstofni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Um 60 mál þar sem grunur var um skattsvik einstaklinga hafa verið felld niður af héraðssaksóknara, en meðal þeirra mála sem felld hafa verið niður eru mál einstaklinga sem komu fyrir í hinum svokölluðu Panamaskjölum.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri hyggst óska eftir því að ríkissaksóknari endurskoði ákvörðun héraðssaksóknara á að minnsta kosti hluta málanna að því er Kjarninn greinir frá.

Búist er við að enn fleiri mál tengd ætluðum skattsvikum verði felld niður á næstunni, en um 150 mál eru nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Skattstofninn í málunum nemur alls yfir 30 milljörðum króna en búið er að endurákvarða skattgreiðslur á flesta þeirra sem eru undir í þeim rannsóknum.

Skattstofninn í málunum 62 sem hafa þegar verið felld niður nemur alls um 9,7 milljörðum króna, en um er að ræða 5,7 milljarða króna í vanframtaldar tekjur og 4 milljarða í vanframtaldar fjármagnstekjur. Snýst umfangsmesta málið um greiðslur frá erlendu félagi, auk hlutabréfaviðskipta, sem samtals nema um 2,2 milljónum króna. 

Annað stór mál snýst um vanframtaldar tekjur sem nema 876 milljónum króna vegna kaupa á hlutabréfum undir gangverði, óheimilar úthlutanir til lögaðila og vanframtalin stjórnarlaun að því er Kjarninn greinir frá upp úr yfirliti frá embætti skattrannsóknastjóra.