Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Lee Buchheit:

Buchheit segir að æskilegt sé að erlendir eigendur eigi að minnsta kosti einhvern hluta íslenska bankakerfisins og að erlent eignarhald þeirra sé „ekki endilega“ vandamál. „Íslensk lög gera ráð fyrir því að eftirlitsaðilar kveði á um að eigendur banka séu hæfir til að eiga þá, líkt og gildir í flestum öðrum löndum. Vald eftirlitsaðila til þess að skera úr um það er bæði víðtækt og háð nokkrum geðþótta. Stjórnvöld munu hafa fjölda tækifæra til að sjá til þess að eigendurnir séu einhverjir sem þau geta sætt sig við.“

„Í hreinskilni sagt þá fylgja því bæði kostir og gallar að hafa erlent eignarhald á bönkum í hagkerfi eins og því íslenska. Einn kostur er sá að þeir munu flytja inn með sér þekkingu og líklega auka samkeppni. Aftur á móti liggur í hlutarins eðli að eignarhaldið verður þá erlent og þess vegna hefur íslenskt samfélag ekki fulla stjórn á því. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég vilja að minnsta kosti einn af viðskiptabönkunum þremur væri í eigu erlendra aðila."

Er lítil samkeppni á íslenskum bankamarkaði vandamál að þínu mati?

„Ég myndi ekki tala um það sem sérstakt vandamál, en það þarf samt að horfa fram á veginn. Það er ekki skynsamleg leið til að reka bankakerfi að vera með þrjá kerfislega mikilvæga banka sem eru allir í eigu lífeyrissjóða.“

Bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .