Verktakafyrirtækið Krappi hefur stefnt fjárfestinum og athafnakonunni Ingunni Wernersdóttur fyrir dóm vegna deilu um uppgjör á byggingu einbýlishúss, hesthúss og skemmu í landi Hróarsholts í Flóahreppi. Deilt er um tæpar 12 milljónir króna.

Óskar Pálsson hjá Krappa vildi lítið tjá sig um málið þegar vb.is leitaði eftir upplýsingum um málið í dag að öðru leyti en því að ekki sé um stórbýli að ræða, byggingarnar séu minni en ætla mætti af lýsingum. „Þetta er smá aðstaða úti í Flóa. Stundum steytir á skeri og þá þarf að finna út úr því. Þetta er hennar mál,“ sagði hann.

Samkvæmt fundargerðum byggingafulltrúa í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps frá í byrjun árs 2010 þegar byggingarnar voru samþykkar er einbýlishúsið 129 fermetra timburhús á einni hæð en hesthúsið og skemman rúmir 250 fermetrar að flatarmáli.

Fyrirtaka í málinu var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.