Stracta Hótel, sem er á Hellu, hefur frá því fyrr í sumar verið í söluferli en fasteignir hótelsins eru til sölu ásamt hótelrekstrinum. Hótelið er að fullu í eigu Hreiðars Hermannssonar og var það opnað sumarið 2014. Hreiðar segir að lengi vel hafi ekki staðið til að selja hótelið en honum hafi snúist hugur og vilji nú selja.

„Við höfum gert hótelið tilbúið í sölu og það er til sölu svo lengi sem viðunandi verð fæst. Ástæðan fyrir því að hótelið er í söluferli er sú að fyrir einu og hálfu ári síðan, í október 2016, höfðu kaupendur samband við okkur án þess að hótelið hefði verið sett á sölu og gerðu okkur það gott tilboð að við tókum því. Það var eiginlega búið að ganga frá öllum málum og verðið var í takt við það sem búið var að meta hótelið á. Svo kom í ljós þegar komið var fram í apríl eða maí 2017 að samningurinn myndi ekki ganga eftir og féll salan því upp fyrir.

Við höfðum ekki ætlað okkur að selja hótelreksturinn áður en að þessu tilboði kom, en eftir það breyttist viðhorf okkar og við ákváðum að við myndum selja svo framarlega sem við fengjum viðunandi verð fyrir hótelið."

Verðmiðinn 3,1 milljarður

„Fasteignir hótelsins og rekstur þess er metinn á 3,1 milljarð króna af matsfyrirtækjum og fasteignasölum sem hafa komið að söluferlinu. Það er mjög fín afkoma í rekstrinum og hún hefur verið ívið betri á þessu ári en reiknað hafði verið með," segir Hreiðar.

Enn stefnt að opnun hótels á Orrustustöðum

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun árs 2016, þá hefur Hreiðar stefnt að því að opna hótel á jörðinni Orrustustöðum í Skaftárhreppi, auk fleiri hótela víða um land. Upphaflega stóð til að hótelið á Orrustustöðum yrði opnað undir lok árs 2017 en töf hefur orðið á framkvæmdum á svæðinu vegna þess hve langan tíma skipulagsmál á svæðinu hafa tekið.

Salan á hótelinu á Hellu hefur ekki áhrif á þessi áform að sögn Hreiðars og stefnir hann áfram ótrauður á að opna þetta hótel.

„Hótelið á Orrustustöðum er eina hótelið sem stendur til að opna eins og staðan er í dag. Þetta á að verða um það bil 200 herbergja hótel. Það er ekkert óðagot í kringum þetta verkefni og þetta er allt í vinnslu. Það hefur reynst erfiðara að fjármagna verkefnið en við áttum von á. Auk þess fóru að heyrast efasemdaraddir þegar framkvæmdir við verkefnið áttu að fara af stað. Því þótti mér skynsamlegra að byrja á því að stækka hótelið á Hellu fyrst og þær framkvæmdir eru í gangi.

Nú þegar höfum við bætt 16 nýjum herbergjum við hótelið og önnur 16 eru í lokafrágangi. Stefnt er að frekari stækkun, eða upp í 380 herbergi. Það er enn stefnt að því að opna á Orrustustöðum og undirbúningur fyrir það er í fullum gangi. Það er heilmikil vinna fram undan, þar sem það þarf að byggja upp alla innviði á svæðinu. Það er engin vatnsveita, rafmagn eða fráveita á svæðinu.  Þegar hefur verið hafist handa við að leggja jarðstreng og önnur innviðauppbygging er í vinnslu.  Einnig þarf að leggja nýjan veg þar sem enginn vegur liggur að jörðinni. Það verður gert í samstarfi við Vegagerðina."

Áhugi frá kaupendum til staðar

Hreiðar segir að nokkrir aðilar hafi sýnt áhuga á að kaupa Stracta hótelið á Hellu, en enn sem komið er hafi ekki verið gengið frá sölunni. „Það hafa komið fram áhugasamir kaupendur, en þó að þeir hafi margir hverjir haft mikið eigið fé á milli handanna hefur það ekki reynst nægilega mikið þegar á hólminn er komið. Aðgengi að lánsfé hefur orðið erfiðara og óöryggi tengt gengismálum spilar einnig stóra rullu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .