(SKIP.IS) Norska matvælaeftirlitið hefur óskað eftir því við rússnesk yfirvöld að fá afrit af upprunavottorðum vegna innflutnings á eldislaxi til Rússlands, sem Rússar halda fram að séu fölsuð. Umrædd vottorð eru sögð vera íslensk.

Svo sem greint var frá hér á vefnum í vikunni þá lítur út fyrir að mikið magn af norskum eldislaxi hafi verið flutt til Rússlands undir því yfirskini að hann væri íslenskur. Innflutningsbann var á lax frá Noregi til Rússlands og svo virðist sem að norskir útflytjendur hafi fengið íslensk fyrirtæki í lið með sér og fengið þau til að ljá laxinum fölsk upprunavottorð.

Að sögn vefsíðunnar IntraFish vill norska matvælaeftirlitið fá afrit af vottorðum sem rússnesk yfirvöld segja að séu fölsuð en Rússar halda því fram að allt að 90% af íslensku vottorðunum falli undir þann flokk.