Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, vill að allir stóru bankarnir þrír verði skráðir á markað, að öllu leyti eða að hluta. Hann segir einnig í samtali við Fréttablaðið að skynsamlegt sé að skrá Landsvirkjun og mörg fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi. Það sé ekki á gjaldeyrishöft bætandi að margar mikilvægustu eignirnar á Íslandi hafi verið teknar út fyrir og standi ekki fjárfestum til boða.

Að mati Páls væri síðan tvöfaldur ávinningur af því að skrá Landsbankann á markað. „Annars vegar væri það gott fyrir markaðinn. Það myndi efla hann og styrkja fjármögnunarumhverfi annarra fyrirtækja. Hins vegar tel ég að sala á til dæmis helmingshlut í bankanum gæti lagað lánshæfismat ríkisins og þar með lækkað fjármagnskostnað hins opinbera.

En það væri líka mjög gott að fá fyrirtæki eins og Landsvirkjun og megnið af sjávarútvegs geiranum á markað. Það eru þó þættir í ytra umhverfinu sem trufla það. Pólitísk andstaða og óvissa um stöðu sjávarútvegsins. Auk þess gerir auðlegðarskatturinn það að verkum að ekki er mjög hagstætt að fá markaðsvirði á eignir í dag. Í því lokaða kerfi sem við erum í er þessi staða ekki á bætandi.“