„Skatturinn er ósanngjarn og rétt að hann verði felldur niður,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um sem mælti fyrir því á Alþingi í dag að fella niður fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í september. Skatturinn átti að fara úr 7% í 14%. Bjarni sagði þetta hugsað í þeim tilgangi að efla samkeppnisstöðu landsins og hluta að því að senda jákvæð skilaboð út í atvinnulífið.

Þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu frumvarp ráðherra en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti m.a. á að skökku skjóti við að á sama tíma og hlutur ferðaþjónustunnar sé stór sem hlutfall af landsframleiðslu þá greiði greinin lægri skatta en gengur og gerist. Hún benti m.a. á að hlutur ferðaþjónustunnar sé 5% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu samanborið við 2-4% í nágrannaríkjunum. Á sama tíma sé skattbyrðin lítil hér, rétt í kringum 22% í stað 33-40% í öðrum löndum.

Bjarni benti á að hugsanlega skili ferðaþjónustan meiru inn í hagkerfið hér þar sem skattar væru lægri. „Kannski skilar ferðaþjónustan almennt meiru hér en annars staðar einmitt vegna þess að við ætlum okkur ekki eins stóran hlut. Ég sé fyrir mér að við sköpum skilyrði til að laða hingað ferðamenn sem skila tekjum,“ sagði hann. „Ef skatturinner hækkaður þá hækkar hann á þá sem koma hingað. Ef við viljum fjölga ferðamönnum þá þurfum við að efla samkeppnishæfnina,“ bætti hann við.