Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, vill fá ítarlegar upplýsingar um kaup Exista á eignarhlut ríkisins í Símanum sumarið 2005 fyrir 66,7 milljarða króna.

Margrét hefur sent Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrirspurn um málið.

Hún vill m.a. fá upplýsingar um hvert umsamið kaupverð var við sölu á Símanum, hversu mikið af því var greitt, hvenær greiðslur bárust og í hvaða formi. Hún tekur sérstaklega fram að hún vilji sundurliðuð svör við fyrirspurn sinni.

Þá spyr Margrét jafnframt hvort staðið var í einu og öllu við gerðan kaupsamning af hálfu kaupenda við sölu á eignarhlut ríkisins. Ef svo hafi ekki verið krefst hún að fá svör við því hvaða skýringar kaupendur hafi gefið og hver staða þeirra gagnvart ríkinu hafi verið í kjölfarið.

„Héldu kaupendur í einhverjum tilfellum eftir eignum án þess að greiða fyrir þær?“ spyr Margrét.

Símakaupin sliga enn Skipti

Eins og fyrr sagði keypti Exista, félag sem að stórum hluta var í eigu þeirra Ágústs og Lýðs Guðmundsson, Símann af ríkinu fyrir 66,7 milljarða króna. Fréttavefur Viðskiptablaðsins, vb.is, hefur áður greint frá því að kaupverðið var að stórum hluta tekið að láni. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings og lenti í erfiðleikum eftir fall Kaupþings haustið 2008. Í september árið 2010 tóku svo kröfuhafar rekstur Exista yfir og ráku báða forstjóra félagsins.

Nú um stundir er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta, móðurfélags Símans. Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, sagði í samtali við vb.is skuldirnar nema 62 milljörðum króna og séu þær að stofni til sambankalán sem tekið var til kaupa á Símanum á sínum tíma.