Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) hefur tekið upp nýja stefnu og er nú orðinn hreinn áhættufjárfestingarsjóður. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri NSA, segir að búið sé að skilgreina hlutverk sjóðsins upp á nýtt og allri þjónustu sem fyrirsjáanlegt er að sjóðurinn tapi á verið hætt. Hlutverk sjóðsins í dag sé að fjárfesta í fyrirtækjum og koma að stjórn þeirra, en það sé nú liðin tíð að taka þátt í fjármögnun verkefna á borð við Auður í krafti kvenna - svo eitthvað sé nefnt - eða að bjóða upp á áhættulán.

"Við erum í dag með tugi fyrirtækja á okkar könnu sem við erum að sinna," segir Gunnar en segir að sjóðurinn eigi ekki nægt fjármagn til að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum. "Það er ekki gott, en ég tel það vandamál samfélagsins en ekki sjóðsins." Gunnar telur nú lag að kippa þessu í liðinn en honum finnst sem að stjórnmálamenn hafi verið furðu áhugalausir um að laga stöðu sjóðsins, svo að sjóðurinn geti farið á ný að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum - sinnt þeirri nýsköpun sem honum ber lögum samkvæmt að sinna. "Þar sem verið er að undirbúa sölu Símans þá finnst mér ekki óeðlilegt að hlutur þeirra tuga milljarða sem munu fást fyrir Símann verði eyrnamerktir til að styðja við stofnun nýrra fyrirtækja."