„Þingið á að fá þessa skýrslu og fjalla um hana,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins um skýrslu sem Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, vann í tengslum við búsáhaldabyltinguna og mótmæli við Alþingishúsið beggja vegna við áramótin 2008 og 2009.

Geir Jón fjallaði um málið á fundi í Valhöll í hádeginu undir yfirskriftinni „Aðför að Alþingi“ og sagði m.a. ýmsa hafa fundið árásina á Alþingishúsið í desember léttvæga. Á fundinum var hann beðinn um að nafngreina ákveðna þingmenn sem hann sagði hafa beitt sér í mótmælunum í byrjun ársins.

Jón Gunnarsson sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag ummæli Geirs Jóns alvarleg í ljósi þess að ætlunin hafi verið að taka þingið yfir og mælti fyrir því að þingmenn fái afrit af skýrslu Geirs Jóns.