Framkvæmdastjóri Proctor & Gamble, AG Lafley, tilkynnti að fyrirtækið myndi fækka 100 vörum úr safni sínu. Ástæða þess er að hann telji neytendur standa frammi fyrir meira vali en þeir kæri sig um, þeir vilja versla á sem einfaldasta og þægilegast máta.

Fyrirtækið mun skera niður 90-100 vörur til að einbeita sér að 70-80 vörunum sem gengur hvað best hjá fyrirtækinu. Vörurnar verða teknar úr umferð á næstu 12-24 mánuðum, en Lafley hefur ekki viljað greina frá um hvaða vörur sé að ræða.

Hins vegar er vitað að meðal varanna sem Proctor & Gamble mun halda áfram að framleiða eru 23 vörur með tekjur upp á einn til tíu milljarða dollara á ári, meðal annars Head & Shoulders sjampó, Pampers bleyjur, og Crest tannkrem.

Lafley telur að með þessu geti P&G, eins og fyrirtækið er oft kallað, einfaldað starfsemi sína og einbeitt sér á sölu vara á markaði þar sem eru miklir tekjumöguleikar.

Lafley tilkynnti þetta eftir að greint var frá 38% tekjuaukningu hjá fyrirtækinu á síðasta ársfjórðungi og 2,6 milljarða dollara sölu. Í kjölfar tilkynningar hækkuðu hlutabréf um 4 prósent og kostar hver hlutur nú 80,45 dollara.