Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði það til á Alþingi í gær að kannað yrði hvort hægt væri að færa aðgerðir af Landspítalanum og yfir á heilbrigðisstofnanir í nágrenni höfuðborgarinnar. Tilefnið er fréttir undanfarna daga um langa biðlista eftir aðgerðum á spítalanum. Þetta yrði því gert til að létta álagi af spítalanum.

Elsa sagðist hafa spurt um rök gegn flutningum aðgerða og fengið þau svör að ekki væri hægt að flytja læknateymi. „En þar sem ég þekki til starfa eru víða góð læknateymi, meðal annars á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þeim er vel treystandi til þessara verka,“ sagði Elsa Lára undir liðnum störf þingsins. „Það er alveg þess virði að kanna möguleika heilbrigðisstofnana víða á landsbyggðinni til að taka við fleiri verkefnum og styrkja þar með starfsemi þeirra og standa vörð um störf og þjónustu á landsbyggðinni.“