Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump hefur lýst því yfir að hann styðji að Nigel Farage, fyrrverandi formaður UK Independence Party og einn helsti stuðningsmaður úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu, verði gerður að sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum.

Trump tísti þessa skoðun sína á samskiptavefnum Twitter, en með því að lýsa þessu yfir brýtur hann allar helstu reglur um samskipti þjóða, enda hefur það aldrei gerst áður að verðandi forseti komi með tilmæli um hver ætti að vera sendifulltrúi annars lands.

Embættið er ekki laust

Stjórnvöld í Bretlandi voru ekki lengi að svara því að Bretland hefði nú þegar sendiherra í Washington, en Kim Darroch fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi tók við hlutverkinu í janúar. Sögðu stjórnvöldin að embættið væri ekki laust.

Nigel Farage svaraði með grein á Breitbart fréttasíðunni, sem áður var rekin af kosningastjóra Trump, sem nú verður aðalráðgjafi hans, að tillagan hefði verið eins og þruma úr heiðskýru lofti. Sagði hann þó að kannski ætti það ekki að koma svo mikið á óvart enda legði Trump mikið upp úr hollustu.

Lýsti yfir stuðningi við Trump og veðjaði á sigur hans

Nigel Farage var einn fárra stjórnmálamanna í Bretlandi sem lýstu yfir stuðningi við Trump en talaði hann meðal annars fyrir framboði hans á kosningafundi. Gekk hann svo langt að „leggja nokkuð mikið undir“ í veðmáli um útkomu kosninganna.

Boris Johnsson, utanríkisráðherra Bretlands hafði gagnrýnt Trump harðlega á síðasta ári og sagt hann óhæfan í embættið vegna gríðarlegrar vanþekkingar sinnar, en nú segir hann að líta verði á sigur Trump sem tækifæri fyrir Bretland.