Sjö þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um niðurfellingu aðflutningsgjalda af ódýrum vörum. Oddgeir Ágúst Ottesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Í tillögunni felst að Alþingi álykti að fela fjármálaráðherra að gera fyrir 1. janúar 2015 nauðsynlegar breytingar á reglugerðum til þess að tryggja að ekki þurfi að greiða aðflutningsgjöld af vöru að verðmæti allt að 10.000 kr. óháð flutningsmáta hennar og því hvort kaupandi sé einstaklingur eða virðisaukaskattskyldur aðili. Einnig er lagt til að tryggt verði að niðurfelling eða endurgreiðsla aðflutningsgjalda vegna endursendingar vöru eigi ávallt við þegar vara sé send til viðgerðar, henni er skipt eða skilað.

Nái þessar breytingar fram að ganga verður lágmarksverðmæti vöru sem ekki ber aðflutningsgjöld hækkað úr 2.000 kr. í 10.000 kr. Í greinargerð með tillögunni segir að sterk rök hnígi til þess að fella aðflutningsgjöldin, þar sem niðurfellingin myndi tryggja jafnræði við önnur lönd. Þá sé kostnaður við innheimtu svo lágra fjárhæða hár og niðurfellingarreglan myndi skapa jafnræði milli þeirra sem færu utan til að versla og þeirra sem versla erlendis frá án þess að fara af landi brott.