Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er á móti því að fyrirtæki sem ráða yfir fiskveiðikvóta séu skráð á hlutabréfamarkað. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) er þriðji stærsti hluthafi sjávarútvegsfyrirtækisins Brims.

Ragnar skrifað í gær, fimmtudag, færslu á Facebook með yfirskriftinni „Síldarvinnslan með þjóðarauðlind sett á markað". Af færslunni má ráða að Ragnari hugnist ekki að lífeyrissjóðir taki þátt í útboði Síldarvinnslunnar,  en hún vekur upp spurningar um afstöðu Ragnars til þess að fyrirtæki sem ráða yfir fiskveiðikvóta séu á markaði. Viðskiptablaðið hafði samband við Ragnar og leitaði eftir afstöðu hans:

„Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki markaðsvara, þetta er þjóðarauðlindin sem er að ganga kaupum og sölum og ég hef bara verulegar áhyggjur af því að það takist ekki að vinda ofan af þessu kerfi með eðlilegum hætti, þegar að allir sem hafa fengið þetta í hendurnar, úthlutað, eru búnir að leysa til sín hagnaðinn. Ég hefði viljað sjá kosningarnar snúast um þjóðarauðlindina, fiskveiðistjórnunarkerfið og það er það sem að ég vonast til."

LIVE þriðji stærsti hluthafi Brims

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þriðji stærsti hluthafinn í einu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Brim, en fyrirtækið ræður yfir fiskveiðikvóta og er skráð á markað. VR tilnefnir 4 af 8 stjórnarmönnum sjóðsins.

Inntur eftir því hvort það sé í samræmi við skoðanir hans að LIVE sé á meðal stærstu hluthafa í Brimi, segist Ragnar ekki gera athugasemdir við að lífeyrissjóðir fjárfesti í Brim eða öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum svo lengi sem það séu einhverjar reglur um að kvótinn sjálfur sé undanskilinn fjárfestingunni.

„Ég geri ekki athugasemdir þó að lífeyrissjóður fjárfesti í sjávarútvegsfyrirtæki svo lengi sem að kvótinn er ekki inni í því verði. Það er alveg klárt í mínum augum að ég geri ekki athugasemdir við að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í Brim svo lengi sem að það séu einhverjar reglur um það að kvótinn sjálfur sé ekki inn í því verði, hann sé undanskilinn því og geti ekki gengið kaupum og sölum," segir Ragnar.

Spurður hvort þess sé að vænta að fulltrúar VR í stjórn LIVE beiti sér gegn fjárfestingum í sjávarútvegsfyrirtækjum segir Ragnar:

„Ég er ekki að beita stjórnarmenn í LIVE neinum þrýstingi. Ég er bara að segja mína persónulegu skoðun, að ég er á móti því að kvótinn okkar gangi kaupum og sölum. Ég held að það geti ekki verið skýrara. Alveg sama hvort að það er Brim eða eitthvað annað, ég er á móti því að það sé verið að selja kvótann okkar á markaði."