Fjármálalæsi unglinga í íslenskum grunnskólum er lítið og þeir hafa litla verðvitund. Það bitnar á getu þeirra til að taka skynsamar ákvarðanir um fjármál þegar þeir eldast. Þetta er meðal niðurstaðna í lokaverkefni Klöru Guðbrandsdóttur við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.

Meðal tillagna um úrbætur eru að kennsla í fjármálalæsi verði færð í aðalnámskrá grunnskólanna, enda óheppilegt að unglingar sem séu farnir að hafa tekjur hafi litla verðvitund og þekkingu á fjármálum. Niðurstöður Klöru eru í samræmi við skýrslu nefndar á vegum viðskiptaráðuneytisins frá árinu 2009.

Í skýrslunni kom meðal annars fram að kennara skorti sjálfa þekkingu og hæfni til að kenna fjármálalæsi, sem bitnaði óhjákvæmilega á fjármálalæsi nemenda.