Stefna á að því að afnema ríkisábyrgðina á Landsvirkjun og fá fleiri eigendur að fyrirtækinu, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni fjallaði í erindi sínu á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir um mikilvægi Landsvirkjunar og hugsanlegan hag þjóðarbúsins af lagningu sæstrengs. Bjarni sagði lagningu sæstrengsins þurfa m.a. að ráðasta af því hvort hann bæti lífskjör þjóðarinnar. Skoða þurfi marga fleiri þætti. Ekki megi hins vegar bíða of lengi eftir því að taka ákvörðun um lagningu sæstrengsins.

„Það er samt sem áður svo að það er mikilvægt að Landsvirkjun standi til boða alþjóðlega samkeppnishæf kjör án ríkisábyrgðar - og að lokum hljótum við að stefna að því að afnema ríkisábyrgðina. Hugsanlegt er að liður í að hraða því ferli væri að fá meðeigendur að félaginu. Í því sambandi mætti hugsa sér að Landsvirkjun gæti verið ákjósanleg eign fyrir lífeyrissjóði til lengri tíma í dreifðu eignasafni,“ segir Bjarni.