Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundaði í gær með Knud Bartels, hershöfðinga og formanni hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem er staddur hér á landi í heimsókn. Þeir ræddu m.a. framtíðarþróun bandalagsins, Mið-Austurlönd, loftrýmiseftirlit á Ísland, netöryggi og öryggismál á norðurslóðum.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að Gunnar Bragi hafi lýst yfir ánægju með framkvæmd loftrýmisgæslu bandalagsríkja á Íslandi síðastliðin fimm ár. Átta bandalagsþjóðir hafa tekið þátt í gæslunni á sextán vöktum. Rætt var um að fjölga vöktum úr þremur í fjórar í samræmi við upphaflega ákvörðun NATO. Gunnar Bragi sagði þátttöku Svíþjóðar og Finnlands í loftrýmiseftirliti í febrúar á næsta ári vera mikilvægan áfanga í norrænu varnarsamstarfi .

Þá lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi jafnréttismála í störfum bandalagsins og þá sérstaklega að það framfylgdi í verki ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Aukið vægi netöryggismála var einnig til umræðu, en nú er í undirbúningi þátttaka Íslands í störfum netöryggisseturs NATO í Eistlandi. Bartels þakkaði Íslendingum fyrir framlag til verkefna á vegum bandalagsins þ.á.m. störf borgaralegra sérfræðinga í Afganistan og áður í Kosovo. Þá lýsti hann ánægju með fyrirkomulag loftrýmiseftirlits á Íslandi.

Knud Bartels hélt einnig fyrirlestur um núverandi og framtíðarverkefni NATO í Norræna húsinu auk þess að funda með utanríkismálanefnd Alþingis og heimsækja landhelgisgæsluna.