Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra athugar nú hvort setja eigi lög á það hversu lengi fyrirtæki á borð við föllnu viðskiptabankana geti verið í slitameðferð. Þetta er gert til þess að flýta fyrir gjaldþrotaskiptum á bönkunum. Verði takmörkin sett þá getur svo farið að gömlu bankarnir yrðu neyddir í gjaldþrotaskipti, samkvæmt íslenskum lögum sem um þau gilda.

Sigmundur segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að ekki hafi verið horft til þess að slitastjórnir myndu halda þrotabúunum gangandi í mörg ár. Ekki er búið að gera þrotabúin upp þótt fimm ár hafi verið liðin í síðasta mánuði þegar bankarnir fóru á hliðina og skilanefndir tóku yfir stjórn þeirra.

Óðinn fjallar um þessa aðferðarfræði í dálki sínum í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn í síðustu viku. „Ef það er farið að lögum og bú bankanna tekin til skipta er þeim skipaður bústjóri sem kemur eignum þeirra í verð og deilir óskiptum til kröfuhafa í íslenskum krónum sem Seðlabankinn selur búunum fyrir gjaldeyri þeirra. Seðlabankinn getur í kjölfarið efnt til uppboðs, sem öllum væri heimilt að taka þátt í, á þeim gjaldeyri og að því loknu væri hægt að losa höftin, þótt hagfræðingar muni eflaust vara við því,“ segir Óðinn. Slíkt ferli væri í samræmi við íslensk lög sem hafa verið í gildi síðan 1991 og öllum þeim sem eiga kröfur í bú bankanna hefði átt að vera kunnugt um þessi lög.