Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að stofnun Dróma og flutningur á innlánum frá Frjálsa fjárfestingarbankanum og SPRON yfir til Arion banka hafi ekki verið skynsamlega leið. Hún telur heppilegra að flytja eignasafnið frá Dróma annað hvort til Eignasafns Seðlabankans eða Arion banka.

Jóhanna ræddi um málefni Dróma, sem stýrir þrotabúum Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún sagði að fulltrúar Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins hafi lagt til að stofna Dróma eftir hrun bankanna, þ.e. að flytja innlán til Arion banka og stofna félag utan um eignir beggja fjármálafyrirtækja og kröfur á hendur viðskiptavinum.

„Ég tel að það þurfi að grípa til aðgerða í þessu máli. Það er ekki hægt að una við að viðskiptavinir Dróma fái aðra afgreiðslu en viðskiptavinir annarra fjármálafyrirtækja,“ sagði Jóhanna og sagðist ekki búast við öðru en að Fjármálaeftirlitið nýti heimildir sínar til aðgerða.

Það var þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson sem spurði Jóhönnu m.a. að því í óundirbúna fyrirspurnartímanum hvers vegna farin hafi verið önnur leið í bankahruninu í tilviki Dróma en hinna bankanna, þ.e.a.s. þegar nýir bankar voru stofnaðir sem tóku við innlánum og ákveðnum eignum þeirra gömlu.