Íþaka fasteignir ehf., leigusali Fosshótel Reykjavík ehf. (FHR), hefur farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómurinn hafni beiðni hótelsins um áframhaldandi veru í greiðsluskjóli. Að mati leigusalans er uppi rökstuddur grunur um að upplýsingar af hendi FHR séu ýmist vísvitandi rangar eða villandi og næsta víst sé að leigusamningi aðila verði rift sökum vanefnda hótelsins.

Eins og fjallað hefur verið um á síðum þessa blaðs hafa Íþaka og FHR deilt fyrir dómi um leigugreiðslur. FHR, sem er innan samstæðu Íslandshótela, var einn fjölmargra rekstraraðila í ferðaþjónustu sem lentu í nær algerri tekjuþurrð eftir að heimsfaraldurinn skall á, en hótelinu var skellt í lás 1. apríl í fyrra.

Í kjölfar þess afréðu stjórnendur þess að greiða ekki leigu á meðan aðstæður í samfélaginu væru með þessu móti. Íþaka brást við með því að ganga á bankaábyrgð, sem sett hafði verið til tryggingar greiðslum, en FHR fékk lögbann á útgreiðslu hennar. Í staðfestingarmáli lögbannsins fór félagið fram á að fjárhæðarákvæði leigusamningsins yrði vikið til hliðar tímabundið. Héraðsdómur féllst á það og lækkaði leigu um helming til eins árs en hafnaði á móti staðfestingu á lögbanninu. Leyfi fékkst til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar en dagsetning málflutnings hefur ekki verið ákveðin.

Skjól degi fyrir opnun sóttvarnahúss

Þegar yfirvöld tóku ákvörðun um að koma á fót sóttvarnahótelum fyrir þau sem koma hingað til lands var FHR fyrsta félagið sem samningur var gerður við.Sagt var frá þeim samningi í fréttum þann 30. mars en degi síðar fékk félagið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, í daglegu tali nefnt greiðsluskjól. Degi síðar, þann 1. apríl, tóku ferðalangar að streyma á hótelið og greiðslur samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar að berast.

Samkvæmt lögum getur greiðsluskjól varað að hámarki í eitt ár og þarf héraðsdómur að veita heimild til framlengingar þess. Að sama skapi ber að hafna framlengingu ef dómari telur skilyrði til slíks ekki vera til staðar. Í nýliðinni viku var beiðni FHR um framlengingu tekin fyrir í héraði og komu þar fram mótmæli af hálfu Íþöku um að sú heimild fengist.

„Nauðsynlegt er að mati [Íþöku] að greiðsluskjólið verði stöðvað svo [félaginu] sé mögulegt að innheimta leiguskuld FHR og taka umráð fasteignar sinnar í Þórunnartúni 1 í Reykjavík og koma henni í hendur aðila sem greiðir húsaleigu,“ segir í bréfi sem lögmaður félagsins sendi héraðsdómi.